Símenntun er lykillinn að vinnumarkaði framtíðarinnar

13.05.24 | Fréttir
Senior education
Ljósmyndari
norden.org
Viðamikil rannsókn sem unnin var Oxford Research með fjármögnun frá Norrænu ráðherranefndinni leiddi í ljós hvernig símenntun getur mótað vinnumarkað framtíðarinnar í norrænu löndunum. Í rannsókninni, sem stóð frá desember 2022 til janúar 2024, var sjónum beint að þeirri hæfniþörf sem fylgir stafvæðingu og grænum umskiptum.

Stafvæðing og græn umskipti eru helsti drifkrafturinn á bak við örar breytingar á hæfniþörf vinnumarkaðarins í heild. Þetta á við um allt frá orkugeiranum í Finnlandi til olíuiðnaðarins í Noregi þar sem starfsfólk þarf stöðugt að uppfæra hæfni sína til þess að halda í við þróun atvinnugreinarinnar.

Hinn sameiginlegi norræni vinnumarkaður er 70 ára á þessu ári. Þess vegna leggja Svíar í formennskutíð sinni sérstaka áherslu á að þróa þau svið sem eflt geta frjálsa för vinnuafls þvert á landamæri. Þar gegnir símenntun mikilvægu hlutverki.

Grænu umskiptin snúast ekki aðeins um umhverfismál heldur einnig í vaxandi mæli um efnahagslegar og félagslegar breytingar. Þessar breytingar hafa mismikil áhrif á mismunandi atvinnugreinar, allt eftir uppbyggingu atvinnuvega hvers lands fyrir sig. Sem dæmi má nefna að áhrifa loftslagsbreytinga mun gæta sérstaklega mikið í löndum eins og Grænlandi og Færeyjum sem eru mjög háð atvinnugreinum sem byggjast á nýtingu náttúruauðlinda.

Öfugt við hin grænu umskipti hefur stafvæðing áhrif á allar atvinnugreinar þvert á hinn norræna vinnumarkað. Stafræn hæfni er nú þegar eftirsóknarverð og nauðsynleg í svo til öllum atvinnugreinum. Rannsóknin sýnir þörfina á stöðugri hæfniþróun þar sem hæfnikröfur allra starfa breytast sífellt vegna stafvæðingarinnar.

Símenntun er grundvallarþáttur í því að skapa inngildandi vinnumarkað í framtíðinni. Grænu umskiptin eru eitt mikilvægasta verkefni okkar.

Petar Cavala, deildarstjóri yfir deild þekkingar og velferðar hjá Norrænu ráðherranefndinni

„Símenntun er grundvallarþáttur í því að skapa inngildandi vinnumarkað í framtíðinni. Grænu umskiptin eru eitt mikilvægasta verkefni okkar. Ef við höfum ekki starfsfólk sem býr yfir réttri hæfni mun okkur ekki takast ætlunarverkið. Skýrslur á borð við þessa leggja því til góða og mikilvæga þekkingu fyrir áframhaldandi vinnu,“ segir Petar Cavala, deildarstjóri yfir deild þekkingar og velferðar hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Misjafnt er með hvaða hætti boðið er upp á símenntun í norrænu löndunum og hversu mikil áhersla er lögð á hana. Í sumum landanna, svo sem Svíþjóð og Finnlandi, er mikil þátttaka á meðal bæði vinnandi fólks og atvinnulausra en önnur lönd eiga í erfiðleikum með að bjóða þeim sem standa frammi fyrir mestu breytingunum upp á næg tækifæri til símenntunar.

Vottun er mikilvæg

Lykilþáttur í að stuðla að símenntun er vottun sem notuð er til þess að meta og viðurkenna hæfni sem næst með bæði formlegu og óformlegu námi. Þannig komast einstaklingar fyrr út á vinnumarkaðinn með þá hæfni sem þeir búa yfir.

Þótt miklar framfarir hafi orðið er í skýrslunni lögð áhersla á þörfina á áframhaldandi áherslu á símenntun til þess að mæta þörfum æ kvikari vinnumarkaðar. Í ljósi hinna öru breytinga sem fylgja tækniframförum og umhverfisáhrifum eru sveigjanleg, inngildandi og aðlögunarhæf menntakerfi nú mikilvægari en nokkru sinni.

Norrænu löndin standa frammi fyrir sameiginlegri áskorun en jafnframt tækifæri til þess að móta vinnumarkað sem er nógu öflugur til þess að takast á við óvissu og tækifæri framtíðarinnar. Símenntun er ekki aðeins nauðsynleg heldur mikilvæg fjárfesting í framtíðinni fyrir öll hin norrænu samfélög.